Skip to main content

Hádegisfyrirlestur RIKK: „Eru barneignir að verða forréttindi sumra?"

Hádegisfyrirlestur RIKK: „Eru barneignir að verða forréttindi sumra?" - Available at University of Iceland
When 
Thu, 14/11/2024 - 12:00 to 13:00
Where 

Þjóðminjasafn Íslands

Further information 
Free admission

Sunna Símonardóttir er fimmti fyrirlesari í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2024 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Erindið ber titilinn: „Eru barneignir að verða forréttindi sumra? Lækkandi fæðingartíðni, kyn og stétt á Íslandi" og verður haldið á milli kl. 12 og 13 fimmtudaginn 14. nóvember í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Síðastliðinn áratug hefur fæðingartíðni á Íslandi verið allt að því í frjálsu falli. Yfirleitt er miðað við að hver kona þurfi að eignast sem nemur 2,1 barni á lífsleiðinni til þess að viðhalda mannfjöldanum en árið 2023 var fæðingartíðnin komin niður í 1,59 börn. Það sem fyrst og fremst keyrir þessa þróun áfram er seinkun foreldrahlutverksins, þ.e. fólk bíður lengur með að eignast sitt fyrsta barn og ennfremur benda rannsóknir til þess að barnleysi hafi aukist. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir niðurstöðum viðamikils rannsóknarverkefnis sem hefur það markmið að skoða og greina þessa þróun með fjölbreyttum aðferðum. Niðurstöður benda til að þessi þróun nái ekki jafnt yfir alla þar sem ákveðnir hópar samfélagsins hafi síður tilhneigingu til þess að eignast barn og menntaðri og tekjuhærri hópar hafi ríkari tilhneigingu til barneigna. Lækkandi fæðingartíðni vekur því upp spurningar um hvort fjölskyldustefna styðji nægilega vel við barnafjölskyldur á Íslandi.

Sunna Símonardóttir er nýdoktor og aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í bókmennta- og kynjafræði 2005 frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í kynjafræði frá University of Leeds 2009 og doktorsprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 2017. Hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á foreldrahlutverkinu, kyngervi og fæðingartíðni. Hún stýrir nú, með Ásdísi Arnalds og Ara Klæng Jónssyni, rannsóknarverkefninu Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi (https://fibi.hi.is/).

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. 

Hér vantar að setja inn myndatexta í Uglu

Hádegisfyrirlestur RIKK: „Eru barneignir að verða forréttindi sumra?"